Wednesday, November 24, 2010

Besti vinurinn og annað fall ævinnar

Laura og ég fórum í súper Walmart á mánudaginn því hún þurfti að kaupa dekk undir bílinn sinn. Súper Walmart er riiiiisastór búð sem selur allt og er mjög ódýr. Það tók klukkutíma að setja dekkin undir bílinn svo við röltum um búðina á meðan. Ég sá nokkra hluti sem ég ætla að kaupa og var komin með saumavél í körfuna þegar við löbbuðum framhjá sjónvörpunum. Við áttuðum okkur á því að við gætum ekki lifað án nýs sjónvarps. Höfum verið að nota litla sjónvarpið hennar Lauru sem er minna en tölvan mín, eða tölvuna mína.

Við enduðum á því að kaupa 32" flatskjá fyrir litla 300 dollara. Hér er það:

(Frekar lélegar myndir, ég veit...). Sjónvarpið heitir Timmy og er besti nýji vinur okkar. Núna getum við legið uppi í rúmi og horft á sjónvarpið, allar 100 rásirnar, nú eða tengt tölvuna mína við það og horft á hluti sem við finnum á internetinu:) Gleði mikil.

Í gær átti ég bókaðan tíma í verklegu bílprófi. Ég tók skriflega prófið fyrir nokkrum vikum og rúllaði því upp og gerði ekki ráð fyrir að verklega prófið yrði erfitt. Ég er nú búin að vera keyrandi í 9 ár, og í 4 mánuði hérna í Massachusetts. Ég mætti stundvíslega klukkan 9 með Lauru, því ég þurfti að taka einhvern með mér sem er með amerískt ökuskírteini (afhverju veit ég ekki...). Mjög ókurteis kona skráði mig í prófið og sagði mér að bíða í bílnum mínum fyrir utan með hættuljósin á og einhver mundi koma og prófa mig. Innan skamms kom maður og bankaði á rúðuna mína. Hann spurði mig hvernig handa merkin væru. Ég vissi ekki einu sinni um hvað hann var að tala en giskaði svo. Ég giskaði vitlaust og féll. Fékk ekki einu sinni tækifæri til þess að keyra! Hann gaf mér svo lista yfir það sem ég þarf að kunna fyrir prófið sem hefði sannarlega verið hjálplegt fyrir tímann í gær.
Ég þakkaði fyrir og keyrði svo í burtu þrátt fyrir fallið, því ég er jú með bílpróf og má löglega keyra hérna! Bóka nýjan tíma sem fyrst til að ég geti fengið amerísk skilríki og hætt að taka vegabréfið mitt með mér hvert sem ég fer.
Þetta er annað fall ævi minnar, féll í íslensku 503 í MH. Vona að þau verði ekki fleiri!

Tuesday, November 9, 2010

Halelúja!

Sundlaugar í Ameríku eru ekki með niðurföll á botninum! Það eru gleðifréttir því ég hræðist niðurföll nánast jafn mikið og ég hræðist engifer og býflugur. Þessi uppgötvun er stórkostleg, ég get stigið til botns án þess að eiga það á hættu að sogast ofan í ógeðslegar pípulagnir.
Spurningin er þó, hvernig tæma Kanarnir sundlaugarnar? Syndir maður bara í sama vatninu endalaust?

Monday, November 8, 2010

Ónei!

Gah ég gerði það aftur! Ég gleymdi að slökkva á ljósunum á bílnum þrátt fyrir skærbleikan áminningarmiða. Þetta gerðist aftur í ræktinni, í þetta skiptið hjálpaði maður mér um sjötugt. Hann var með rosa flott yfirvaraskegg og helling af tattúum. Hann var með tæki sem ég ætti kannski að kaupa mér, svona box tengt við startkapla. Ef ég ætti svoleiðis þyrfti ég aldrei að fá hjálp við þetta aftur!

Ef þið hafið einhverjar hugmyndir að áminningarsystemi þá endilega látið mig vita. Ég virðist þurfa eitthvað drastískara en lítinn miða...

Thursday, November 4, 2010

Ljósin sem valda vandræðum

Ég keypti kort í rækt hérna rétt hjá um daginn. Með kaupum á kortinu fylgdi einn tími hjá einkaþjálfara sem ég nýtti mér. Þessi einkaþjálfari, hann Brian, var eins og þeir flestir eru, hrokafullur maður sem vill meina að hann viti allt. Hann pirraði mig sumsé og ég keypti ekki af honum frekari tíma, enda veit ég allt.
Í gær fór ég í ræktina. Ég hunsaði besser visserinn hann Brian eins og venjulega og gerði það sem maður gerir í ræktinni, hljóp á færibandi. Þegar ég hafði hlaupið nægju mína vildi ég heim.
Þegar ég kom út sá ég að það var kveikt á ljósunum á bílnum mínum svo ég hljóp, haldandi það að 2 sekúndur til eða frá skiptu máli. Bíllinn reyndist nánast alveg rafmagnslaus, ég gat ekki komið honum í gang.
Ég hafði þá um tvennt að velja, hringja í vega aðstoðina (sem ég fékk mér eftir að ég lenti síðast í vandræðum með bílhræið) eða fara aftur inn og biðja um aðstoð þar.
Ég ákvað að það væri líklega fljótlegra að biðja almennilegu konurnar í afgreiðslunni um aðstoð. Þegar ég spurði þær kom hinsvegar í ljós að engin af þeim átti startkapla eða treysti sér til að gefa bílnum start, þrátt fyrir að ég segði þeim að ég kynni það alveg (slöpp trú á eigin kyni held ég að spili inn í þessi viðbrögð...).
Þær náðu því í Brian fyrir mig, mér til skapraunar.
Brian var mjög heppinn því hann gat sannað karlmennsku sína á tvo vegu. Það voru bílar báðu megin við bílinn minn svo að hann þurfti að ýta honum út úr stæðinu. Hann náði ekki í einhvern annan til að hjálpa sér, nei hann sagði stoltur að hann ætti nú að ráða við þetta (og gerði það því miður). Þar með sannaði hann styrk sinn.
Hann fékk svo líka að sanna bílakunnáttu sína með því að tengja kaplana og gefa bílnum mínum start.
Þegar ég mætti í ræktina í dag mætti ég Brian sem skartaði óþolandi yfirlætis brosi (ok kannski var það venjulegt, vinalegt bros...) og lét það pirra mig.
Er samt þakklát honum fyrir að koma mér heim.

Þess má geta að þetta er í annað sinn sem bíllinn verður rafmagnslaus vegna gleymsku minnar, og í þriðja sinn sem ég gleymi ljósunum á. Ég var heppin í eitt skiptið.
Í dag setti ég skærbleikan miða við hliðina á ljósrofanum. Ætti ekki að gleyma þeim í bráð.

Dýrið á bílastæðinu

Þegar ég kom heim í gær lagði ég undir trénu þar sem þvottabjörninn á heima. Hann var á staðnum og þar sem ég sat inni í bílnum með ljósin kveikt (bölvuð ljósin sem valda mér vandræðum! (sjá næstu færslu)) gat ég skoðað hann gaumgæfilega. Það fyrsta sem ég tók eftir var að hann var ekki með loðið skott, heldur langt og sköllótt rottuskott. Ég sá svo að andlitið og tjah allur afgangurinn af búknum var ekkert líkt þvottabirni. Í kvöld "googlaði" ég kvikyndið og viti menn, þvottabjörninn er ekki þvottabjörn heldur pokarotta (held ég, google vildi ekki þýða "possum" fyrir mig).
Pokarottur líta svona út:
Þetta er sæt mynd af dýrinu.

Finn mig knúna til að setja inn aðra mynd af dýrinu, með sérstakri áherslu á skottið fyrir Soffíu. 
Hérna sést ógeðis halinn á kvikyndinu.

Og eina hræðilega mynd:

Þetta er ljót mynd af dýrinu.




Ég nennti ekki að lesa mér til um hegðun pokarotta, læt það bara koma mér á óvart ef hún stekkur úr trénu eða felur sig undir bílnum og ræðst á mig.