Sunday, August 29, 2010

Týpískur dagur í ágúst 2010

Fór fyrst í ræktina. Hún er sirka 30fm.
Gleymdi hlaupaskónum mínum í Laugum 4 dögum áður en ég flutti. Fattaði það rétt fyrir flug. Þessir skór sem áður voru dansskór gegna því þeirra hlutverki í augnablikinu. Koma þægilega á óvart.

Horfði svo á þessa mynd. Hún var sorgleg.

Á meðan ég horfði á hana saumaði ég aðeins út í vettlinga...
...borðaði smá mat (hér er alltaf hægt að finna fullkomið avocado, jeij)...
...og handsnyrti sjálfa mig.
Horfði svo á þessa mynd



Klukkan er bara hálf 4. Kannski kemur seinni helmingur dagsins í máli og myndum í kvöld. Spennandi? Já held það nú!

Jæja

Núna er allt saman að smella hérna í Ameríku. Fékk loksins social security númerið (sem er svona svipað og kennitala). Komst að því þegar ég sótti um það að ég þurfti alls ekkert allar upplýsingarnar sem mér hafði verið sagt að ég þurfti, svo að í rauninni hefði ég getað sótt um þetta miklu fyrr. Frábært.

Ég fór og hitti mann hjá Toyota umboði. Ég var búin að lesa allskonar á netinu um bíla og mismunandi leiðir til þess að fá sér bíl. Á netinu er maður allsstaðar varaður við því að bílasölumenn vilja alltaf svindla á manni. Ég var því staðráðin í að vera mjög hörð, fá bara tilboð og skoða svo annarsstaðar líka til þess að fá besta samninginn. Það gekk þó ekki eftir, því um leið og ég labbaði inn í fyrstu bílasöluna breyttist ég í aumingja. Sagði bara já og amen við öllu því sem kallinn sagði og gleymdi alveg að spyrja hann að nokkru. Samþykkti þess vegna fyrsta samninginn sem ég fékk! Hann er reyndar nokkuð góður, fékk bílinn ódýrari því ég get keyrt beinskiptann sem þykir frekar merkilegt hér í Ameríku. Ég fæ svo glænýja Toyotu Corollu á rekstrarleigu þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að bíllinn bili.


Svona lítur nýji bíllinn minn út
Ég er reyndar ekki búin að fá hann enn, einhverjir pappírar þurfa að renna í gegn hjá Toyota, en fæ hann líklega á morgun:)

Ég fór í búð sem heitir Whole Foods á föstudaginn og þar fann ég bæði skyr.is og Nóa Siríus súkkulaði. Keypti auðvitað bæði, borðaði skyrið og mundi síðan að ég fæ illt í magann af því. Súkkulaðið rann hins vegar ljúflega niður án vandræða.

Á morgun byrja ég að vinna, loksins! Er mjög spennt að fá að gera eitthvað, orðin frekar þreytt á fríinu.

Wednesday, August 18, 2010

Ég elska Leoncie!

Pöddur og fleira

Ég fór í gönguferð með fjórum öðrum stelpum um helgina. Á leiðinni þangað byrjuðu þær að tala um dýrin og pöddurnar í skóginum sem maður þarf að vara sig á. Ég hata pöddur og varð ekki hrifin þegar þær sögðu mér að á Boston svæðinu er óvenju mikið af Ticks, eða Skógarmítli. Það hefði sannarlega verið gott að vita áður en ég fór út úr húsi því ég var berfætt í sandölum og stuttbuxum. Á leiðinni skemmti ég stelpunum með því að hlaupa í geðshræringu undan risa fiðrildum og fríka út yfir allskonar flugum.
Gangan var samt fín, ólík göngum hér heima, maður sá ekkert vegna ofsa hárra trjáa. Stelpan sem ég deili herbergi með, Laura, er spennt fyrir allskonar útivist og ég er ánægð með það. Hér í sirka 40mínútna fjarlægð er fullt af gönguleiðum og svo er skíðasvæði ekki svo langt í burtu. Mun sannarlega nýta mér það.
Stelpurnar ganga

Fullt af skógi


Um leið og ég opna munninn hérna giskar fólk á hvaðan ég er. Giskið er alltaf Skotland eða Írland! Ég hef greinilega tileinkað mér afskaplega töff hreim og er ánægð með það:)

Thursday, August 12, 2010

Fullt af frítíma!

Hér gerist ekkert rosalega mikið akkúrat núna, er bara í fríi þar til 30. ágúst á meðan allir hinir vinna svo ég slappa bara af og læt tímann líða. Fór reyndar í eyjasiglingu síðasta sunnudag með tveimur öðrum stelpum. Við sigldum út í eyju sem heitir Georges island og á henni er gamalt virki til þess að verja borgina fyrir óvinum. Eftir labb þar í steikjandi hita tókum við "water taxi" eða vatnaleigubíl út í aðra eyju sem heitir Spectacle island, sú eyja er að mestu gerð úr rusli. Hún er samt sem áður mjög falleg, allt ruslið er núna undir grasi og trjám.

Miðborg Boston séð frá sjó


Í vikunni hef ég svo:
-farið til Boston að skoða í búðir. Þar keypti ég mér bráðnauðsynleg sumarföt.
-Hangið við sundlaugina. Hef sjaldan verið jafn brún og ég er núna.
-Horft á sirka 20 þætti af Felicity.
-Leikið mér í orðavindu.
-Farið út að hlaupa einu sinni. Dó næstum því vegna lélegs þols og of mikils hita.
-Reynt að redda lykli að Fitness herberginu hérna, fæ hann ekki fyrr en eftir helgi.
-Farið í leiðangur í leit að áfengisverslun.
-Keyrt í 1 og hálfan tíma til Springfield til þess að fá undirskriftir sem ég fékk ekki.
-Heimsótt NECC  (staðurinn sem ég mun vinna á) í smástund.
-Spjallað við og kynnst stelpunni sem ég deili herbergi með.
-Talað í símann við bílasala sem var með svo mikinn hreim að ég skildi hann varla. Sjálf var ég líklega með svo mikinn hreim að hann skildi mig ekki...

Áttaði mig á því í dag að fólk gerir ráð fyrir að maður eigi ávísanahefti! Varð það ekki úrelt 90 og eitthvað? Hef allavega aldrei þurft að nota svoleiðis síðan ég byrjaði að borga fyrir hluti sjálf. Klikkuðu útlendingar...

Saturday, August 7, 2010

Myndir

Hnetusmjör og sulta saman í krukku, bara fyrir mömmu:)
Húsið mitt.
Fullkomin stærð af gosdós!
Unaðslega sundlaugin.
Útsýnið af svölunum




Fáni frelsisins fyrir utan húsið.


Mun ekki byrja að vinna fyrr en þrítugasta svo ég fæ auka 3 vikur í sumarfrí. Æfði mig í dag, fór í búðir, sólaði mig við sundlaug og horfði á sjónvarpið. Nokkuð góður dagur bara svo ég er bjartsýn á framhaldið;)

Friday, August 6, 2010

Flutt til útlanda

Ég er flutt til útlanda. Bý fyrir utan Boston í bæ sem heitir Westborough. Íbúðin er þokkalega stór og ég deili henni með 3 öðrum stelpum, er í herbergi með einni þeirra. Hef enn ekki hitt þær, tvær eru í fríi og sú þriðja flytur inn á morgun.
Byrja vonandi að vinna næsta miðvikudag sem er það sem mér var sagt frá byrjun, en kannski verður það ekki fyrr en 30. ágúst. Veit ekki alveg hvað ég á að dóla mér við í 3 vikur ef ég byrja ekki að vinna strax en það reddast eins og annað:) Byrja held ég í skólanum í lok ágúst, það er samt eitthvað óljóst, kemur í ljós eins og annað.
Hér er ekki mikið hægt að gera ef maður er bíllaus, þarf því að redda mér Massachusetts bílprófi og kaupa svo eða leigja bíl. Það er hinsvegar ekki hægt að gera fyrr en ég fæ "social security number" og ég get ekki fengið það fyrr en ég næ í konu hjá skólanum sem ég er að fara í. Það er sumsé allt bara í biðstöðu í bili.
Ég er þó svo heppin að hér í næstu blokk býr Berglind, sem er búin að vera hér í 3 ár. Hún keyrir mig og lánar mér bílinn sinn og hjálpar mér með allt saman, það er stórgott:)