Sunday, August 29, 2010

Jæja

Núna er allt saman að smella hérna í Ameríku. Fékk loksins social security númerið (sem er svona svipað og kennitala). Komst að því þegar ég sótti um það að ég þurfti alls ekkert allar upplýsingarnar sem mér hafði verið sagt að ég þurfti, svo að í rauninni hefði ég getað sótt um þetta miklu fyrr. Frábært.

Ég fór og hitti mann hjá Toyota umboði. Ég var búin að lesa allskonar á netinu um bíla og mismunandi leiðir til þess að fá sér bíl. Á netinu er maður allsstaðar varaður við því að bílasölumenn vilja alltaf svindla á manni. Ég var því staðráðin í að vera mjög hörð, fá bara tilboð og skoða svo annarsstaðar líka til þess að fá besta samninginn. Það gekk þó ekki eftir, því um leið og ég labbaði inn í fyrstu bílasöluna breyttist ég í aumingja. Sagði bara já og amen við öllu því sem kallinn sagði og gleymdi alveg að spyrja hann að nokkru. Samþykkti þess vegna fyrsta samninginn sem ég fékk! Hann er reyndar nokkuð góður, fékk bílinn ódýrari því ég get keyrt beinskiptann sem þykir frekar merkilegt hér í Ameríku. Ég fæ svo glænýja Toyotu Corollu á rekstrarleigu þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að bíllinn bili.


Svona lítur nýji bíllinn minn út
Ég er reyndar ekki búin að fá hann enn, einhverjir pappírar þurfa að renna í gegn hjá Toyota, en fæ hann líklega á morgun:)

Ég fór í búð sem heitir Whole Foods á föstudaginn og þar fann ég bæði skyr.is og Nóa Siríus súkkulaði. Keypti auðvitað bæði, borðaði skyrið og mundi síðan að ég fæ illt í magann af því. Súkkulaðið rann hins vegar ljúflega niður án vandræða.

Á morgun byrja ég að vinna, loksins! Er mjög spennt að fá að gera eitthvað, orðin frekar þreytt á fríinu.

3 comments:

hlín said...

til lukku með bílinn, hvernig stendur hann sig?

Steinkah said...

Það kom í ljós að ég fæ hann ekki. Ameríka vill ekki veita mér bankalán...
Á morgun mun ég hins vegar kaupa mér druslu á lítinn pening;)

hlín said...

Uss bara, en druslur geta verið hinir ágætustu bílar :)