Tuesday, October 19, 2010

Saga bílsins

Fyrir sirka 5 vikum keypti ég bíl. Hann er 15 ára gömul Honda og lítur svona út:
 Hann er undarleg grár að lit og svo gamall að það er bara segulbandstæki í honum. Ég keypti því spólu sem maður setur í segulbandstækið og getur svo tengt í MP3 spilarann, það er betra en geislaspilari!
Þegar ég keypti bílinn var miðstöðin biluð, hún kældi ekki bílinn sem er mjög vont í hitanum. Nýju vinir mínir á litlu bílasölunni lánuðu mér því bíl á meðan þeir gerðu við miðstöðina.

Sá bíll lítur svona út:
Á þessari mynd er hann stopp við hraðbrautina og ég og Laura vinkona mín standandi úti í kanti. Ég var búin að vera með hann í láni í um það bil viku þegar við vorum á leiðinni heim úr verslunarleiðangri. Allt í einu fundum við brunalykt. Við vorum vissar um að það væri ekki okkar bíll sem lyktaði svona og slökktum bara á miðstöðinni. Skömmu síðar, sirka 4 mínútum áður en við komum heim kom rosa gufa upp úr miðstöðinni og brunalyktin varð meiri svo við stoppuðum strax úti í kanti og stukkum út skíthræddar.
Þegar við komum út úr bílnum sáum við að það gusaðist einhver vökvi úr vélinni (það má sjá vökvaslóðina á myndinni) og það rauk upp úr miðstöðinni.
Ég hringdi í vini mína bílakallana, og eigandinn kom eftir tíu mínútur og sótti okkur. Hann keyrði okkur á bílasöluna og lánaði mér annan bíl.

Sá bíll lítur svona út:




Já hann er sportbíll, Toyota Celica. Í honum sat ég nánast á götunni og spoilerinn var fyrir mér í afturspeglinum! Hann keyrði mjög hratt (já bíllinn stjórnaði hraðanum...) og það var gaman að nota hann.

Loksins fékk ég svo minn bíl, fyrir sirka 3 vikum. Á laugardaginn talaði ég við afa í símann og hann spurði mig hvernig bíllinn væri. Ég sagði sem var að hann væri bara prýðilegur, keyrði og svona svo að það var ekki yfir neinu að kvarta.
2 tímum síðar át ég þau orð ofan í mig. Ég var á leiðinni í verslunarleiðangur (já mér finnst gaman að versla...) með vinkonu minni þegar bíllinn varð skyndilega óvenju hávær. Svo hávær að við gátum ekki talað saman inni í honum. Við heyrðum svo að eitthvað dróst eftir jörðinni með háu dósahljóði. Ég stoppaði bílinn um leið og ég gat og kíkti undir hann. Jú hljóðkúturinn hafði brotnað og lafði niður í götu.
Það kom í ljós að ég hafði ekki beðið um vega aðstoð þegar ég keypti trygginguna mína (menn sem koma og hjálpa ungum stúlkum í aðstæðum sem þessum...(og mönnum og fólki á öllum aldri líklega)). Það var vond hugmynd.
Ég endaði því á því að hringja bara aftur í vini mína bílamennina sem sögðu mér að keyra bílinn til þeirra og þeir löguðu hann á hálftíma:)

Því má bæta við að bíllinn varð rafmagnslaus um daginn því ég gleymdi ljósunum á (þarf að setja post it miða á stýrið til að minna mig á að slökkva ljósin...). Mér og samstarfskonu minni tókst að starta bílnum aftur mér til mikils stolts.
Öll þessi skipti hefur mig langað til að hringja í pabba og láta hann redda málunum. Kannski ágætt að ég get það ekki, orðin 26 og svona;) Er sumsé að fullorðnast og öðlast sjálfstæði í Bandaríkjum Norður Ameríku.

Og þetta er sagan af bílnum. Vona að ég þurfi engu að bæta við hana í bráð!





Steinunn

4 comments:

Jóhanna Lilja said...

Hjúkk að þú átt vini á bílasölunni!

Knús, knús, knús!

Hafsteinn Karlsson said...

Ég get alveg skotist ef eitthvað er að

Steinunn said...

Hehe takk pabbi. Ég hringi næst þegar ég bíllin verður rafmagnlaus!

Steinunn said...

Nei bíllinn með tveimur ennum...