Friday, December 24, 2010

Jólin

Hér er ég við jólatréð okkar Lauru. Takið eftir glæsilegu jólasokkunum á veggnum! Takk fyrir pakkana, ég ætla að opna þá í kvöld eftir vinnu:)
Á morgun fer ég til ættingja Lauru í mat og fleiri pakka, það verður vonandi gaman. Held það eigi að vera jólaskinka í matinn og mac and cheese sem meðlæti, ég hlakka mikið til að smakka það.

Gleðileg jól!!

Friday, December 3, 2010

Tvífarar?


















Held það bara.
Gott föstudagskvöld í gangi með sjónvarpinu, stórkökum (stórar smákökur) og slúðurblaði.

Yfir og út!
Steinunn

Wednesday, November 24, 2010

Besti vinurinn og annað fall ævinnar

Laura og ég fórum í súper Walmart á mánudaginn því hún þurfti að kaupa dekk undir bílinn sinn. Súper Walmart er riiiiisastór búð sem selur allt og er mjög ódýr. Það tók klukkutíma að setja dekkin undir bílinn svo við röltum um búðina á meðan. Ég sá nokkra hluti sem ég ætla að kaupa og var komin með saumavél í körfuna þegar við löbbuðum framhjá sjónvörpunum. Við áttuðum okkur á því að við gætum ekki lifað án nýs sjónvarps. Höfum verið að nota litla sjónvarpið hennar Lauru sem er minna en tölvan mín, eða tölvuna mína.

Við enduðum á því að kaupa 32" flatskjá fyrir litla 300 dollara. Hér er það:

(Frekar lélegar myndir, ég veit...). Sjónvarpið heitir Timmy og er besti nýji vinur okkar. Núna getum við legið uppi í rúmi og horft á sjónvarpið, allar 100 rásirnar, nú eða tengt tölvuna mína við það og horft á hluti sem við finnum á internetinu:) Gleði mikil.

Í gær átti ég bókaðan tíma í verklegu bílprófi. Ég tók skriflega prófið fyrir nokkrum vikum og rúllaði því upp og gerði ekki ráð fyrir að verklega prófið yrði erfitt. Ég er nú búin að vera keyrandi í 9 ár, og í 4 mánuði hérna í Massachusetts. Ég mætti stundvíslega klukkan 9 með Lauru, því ég þurfti að taka einhvern með mér sem er með amerískt ökuskírteini (afhverju veit ég ekki...). Mjög ókurteis kona skráði mig í prófið og sagði mér að bíða í bílnum mínum fyrir utan með hættuljósin á og einhver mundi koma og prófa mig. Innan skamms kom maður og bankaði á rúðuna mína. Hann spurði mig hvernig handa merkin væru. Ég vissi ekki einu sinni um hvað hann var að tala en giskaði svo. Ég giskaði vitlaust og féll. Fékk ekki einu sinni tækifæri til þess að keyra! Hann gaf mér svo lista yfir það sem ég þarf að kunna fyrir prófið sem hefði sannarlega verið hjálplegt fyrir tímann í gær.
Ég þakkaði fyrir og keyrði svo í burtu þrátt fyrir fallið, því ég er jú með bílpróf og má löglega keyra hérna! Bóka nýjan tíma sem fyrst til að ég geti fengið amerísk skilríki og hætt að taka vegabréfið mitt með mér hvert sem ég fer.
Þetta er annað fall ævi minnar, féll í íslensku 503 í MH. Vona að þau verði ekki fleiri!

Tuesday, November 9, 2010

Halelúja!

Sundlaugar í Ameríku eru ekki með niðurföll á botninum! Það eru gleðifréttir því ég hræðist niðurföll nánast jafn mikið og ég hræðist engifer og býflugur. Þessi uppgötvun er stórkostleg, ég get stigið til botns án þess að eiga það á hættu að sogast ofan í ógeðslegar pípulagnir.
Spurningin er þó, hvernig tæma Kanarnir sundlaugarnar? Syndir maður bara í sama vatninu endalaust?

Monday, November 8, 2010

Ónei!

Gah ég gerði það aftur! Ég gleymdi að slökkva á ljósunum á bílnum þrátt fyrir skærbleikan áminningarmiða. Þetta gerðist aftur í ræktinni, í þetta skiptið hjálpaði maður mér um sjötugt. Hann var með rosa flott yfirvaraskegg og helling af tattúum. Hann var með tæki sem ég ætti kannski að kaupa mér, svona box tengt við startkapla. Ef ég ætti svoleiðis þyrfti ég aldrei að fá hjálp við þetta aftur!

Ef þið hafið einhverjar hugmyndir að áminningarsystemi þá endilega látið mig vita. Ég virðist þurfa eitthvað drastískara en lítinn miða...

Thursday, November 4, 2010

Ljósin sem valda vandræðum

Ég keypti kort í rækt hérna rétt hjá um daginn. Með kaupum á kortinu fylgdi einn tími hjá einkaþjálfara sem ég nýtti mér. Þessi einkaþjálfari, hann Brian, var eins og þeir flestir eru, hrokafullur maður sem vill meina að hann viti allt. Hann pirraði mig sumsé og ég keypti ekki af honum frekari tíma, enda veit ég allt.
Í gær fór ég í ræktina. Ég hunsaði besser visserinn hann Brian eins og venjulega og gerði það sem maður gerir í ræktinni, hljóp á færibandi. Þegar ég hafði hlaupið nægju mína vildi ég heim.
Þegar ég kom út sá ég að það var kveikt á ljósunum á bílnum mínum svo ég hljóp, haldandi það að 2 sekúndur til eða frá skiptu máli. Bíllinn reyndist nánast alveg rafmagnslaus, ég gat ekki komið honum í gang.
Ég hafði þá um tvennt að velja, hringja í vega aðstoðina (sem ég fékk mér eftir að ég lenti síðast í vandræðum með bílhræið) eða fara aftur inn og biðja um aðstoð þar.
Ég ákvað að það væri líklega fljótlegra að biðja almennilegu konurnar í afgreiðslunni um aðstoð. Þegar ég spurði þær kom hinsvegar í ljós að engin af þeim átti startkapla eða treysti sér til að gefa bílnum start, þrátt fyrir að ég segði þeim að ég kynni það alveg (slöpp trú á eigin kyni held ég að spili inn í þessi viðbrögð...).
Þær náðu því í Brian fyrir mig, mér til skapraunar.
Brian var mjög heppinn því hann gat sannað karlmennsku sína á tvo vegu. Það voru bílar báðu megin við bílinn minn svo að hann þurfti að ýta honum út úr stæðinu. Hann náði ekki í einhvern annan til að hjálpa sér, nei hann sagði stoltur að hann ætti nú að ráða við þetta (og gerði það því miður). Þar með sannaði hann styrk sinn.
Hann fékk svo líka að sanna bílakunnáttu sína með því að tengja kaplana og gefa bílnum mínum start.
Þegar ég mætti í ræktina í dag mætti ég Brian sem skartaði óþolandi yfirlætis brosi (ok kannski var það venjulegt, vinalegt bros...) og lét það pirra mig.
Er samt þakklát honum fyrir að koma mér heim.

Þess má geta að þetta er í annað sinn sem bíllinn verður rafmagnslaus vegna gleymsku minnar, og í þriðja sinn sem ég gleymi ljósunum á. Ég var heppin í eitt skiptið.
Í dag setti ég skærbleikan miða við hliðina á ljósrofanum. Ætti ekki að gleyma þeim í bráð.

Dýrið á bílastæðinu

Þegar ég kom heim í gær lagði ég undir trénu þar sem þvottabjörninn á heima. Hann var á staðnum og þar sem ég sat inni í bílnum með ljósin kveikt (bölvuð ljósin sem valda mér vandræðum! (sjá næstu færslu)) gat ég skoðað hann gaumgæfilega. Það fyrsta sem ég tók eftir var að hann var ekki með loðið skott, heldur langt og sköllótt rottuskott. Ég sá svo að andlitið og tjah allur afgangurinn af búknum var ekkert líkt þvottabirni. Í kvöld "googlaði" ég kvikyndið og viti menn, þvottabjörninn er ekki þvottabjörn heldur pokarotta (held ég, google vildi ekki þýða "possum" fyrir mig).
Pokarottur líta svona út:
Þetta er sæt mynd af dýrinu.

Finn mig knúna til að setja inn aðra mynd af dýrinu, með sérstakri áherslu á skottið fyrir Soffíu. 
Hérna sést ógeðis halinn á kvikyndinu.

Og eina hræðilega mynd:

Þetta er ljót mynd af dýrinu.




Ég nennti ekki að lesa mér til um hegðun pokarotta, læt það bara koma mér á óvart ef hún stekkur úr trénu eða felur sig undir bílnum og ræðst á mig.

Tuesday, October 19, 2010

Saga bílsins

Fyrir sirka 5 vikum keypti ég bíl. Hann er 15 ára gömul Honda og lítur svona út:
 Hann er undarleg grár að lit og svo gamall að það er bara segulbandstæki í honum. Ég keypti því spólu sem maður setur í segulbandstækið og getur svo tengt í MP3 spilarann, það er betra en geislaspilari!
Þegar ég keypti bílinn var miðstöðin biluð, hún kældi ekki bílinn sem er mjög vont í hitanum. Nýju vinir mínir á litlu bílasölunni lánuðu mér því bíl á meðan þeir gerðu við miðstöðina.

Sá bíll lítur svona út:
Á þessari mynd er hann stopp við hraðbrautina og ég og Laura vinkona mín standandi úti í kanti. Ég var búin að vera með hann í láni í um það bil viku þegar við vorum á leiðinni heim úr verslunarleiðangri. Allt í einu fundum við brunalykt. Við vorum vissar um að það væri ekki okkar bíll sem lyktaði svona og slökktum bara á miðstöðinni. Skömmu síðar, sirka 4 mínútum áður en við komum heim kom rosa gufa upp úr miðstöðinni og brunalyktin varð meiri svo við stoppuðum strax úti í kanti og stukkum út skíthræddar.
Þegar við komum út úr bílnum sáum við að það gusaðist einhver vökvi úr vélinni (það má sjá vökvaslóðina á myndinni) og það rauk upp úr miðstöðinni.
Ég hringdi í vini mína bílakallana, og eigandinn kom eftir tíu mínútur og sótti okkur. Hann keyrði okkur á bílasöluna og lánaði mér annan bíl.

Sá bíll lítur svona út:




Já hann er sportbíll, Toyota Celica. Í honum sat ég nánast á götunni og spoilerinn var fyrir mér í afturspeglinum! Hann keyrði mjög hratt (já bíllinn stjórnaði hraðanum...) og það var gaman að nota hann.

Loksins fékk ég svo minn bíl, fyrir sirka 3 vikum. Á laugardaginn talaði ég við afa í símann og hann spurði mig hvernig bíllinn væri. Ég sagði sem var að hann væri bara prýðilegur, keyrði og svona svo að það var ekki yfir neinu að kvarta.
2 tímum síðar át ég þau orð ofan í mig. Ég var á leiðinni í verslunarleiðangur (já mér finnst gaman að versla...) með vinkonu minni þegar bíllinn varð skyndilega óvenju hávær. Svo hávær að við gátum ekki talað saman inni í honum. Við heyrðum svo að eitthvað dróst eftir jörðinni með háu dósahljóði. Ég stoppaði bílinn um leið og ég gat og kíkti undir hann. Jú hljóðkúturinn hafði brotnað og lafði niður í götu.
Það kom í ljós að ég hafði ekki beðið um vega aðstoð þegar ég keypti trygginguna mína (menn sem koma og hjálpa ungum stúlkum í aðstæðum sem þessum...(og mönnum og fólki á öllum aldri líklega)). Það var vond hugmynd.
Ég endaði því á því að hringja bara aftur í vini mína bílamennina sem sögðu mér að keyra bílinn til þeirra og þeir löguðu hann á hálftíma:)

Því má bæta við að bíllinn varð rafmagnslaus um daginn því ég gleymdi ljósunum á (þarf að setja post it miða á stýrið til að minna mig á að slökkva ljósin...). Mér og samstarfskonu minni tókst að starta bílnum aftur mér til mikils stolts.
Öll þessi skipti hefur mig langað til að hringja í pabba og láta hann redda málunum. Kannski ágætt að ég get það ekki, orðin 26 og svona;) Er sumsé að fullorðnast og öðlast sjálfstæði í Bandaríkjum Norður Ameríku.

Og þetta er sagan af bílnum. Vona að ég þurfi engu að bæta við hana í bráð!





Steinunn

Síðustu vikur

Til hamingju með 80 ára afmælið á laugardaginn elsku afi minn! Vona sannarlega að dagurinn hafi verið góður:)

Ekki er frá svo mörgu að segja. 

Ég vinn alveg helling og læri þess á milli.
Vinnan er krefjandi, ég er ekki vön öllum reglunum sem við þurfum að fara eftir og ég er vön því að stjórna því sjálf frekar mikið hvað ég geri í vinnunni. Hér er ég nýbyrjuð sem þýðir að ég hef ekki mikið að segja og ég á svolítið erfitt með að vera undirmaður.
Skólinn gengur rosa vel. Ég les eins og brjálæðingur og rústa öllum prófum og verkefnum:)
Með þessu mæti ég á rannsóknarfundi og á næstu dögum mun ég byrja að taka þátt í rannsókn, sem þýðir að ég þarf að vinna og lesa enn meira.

Hér er haustið komið. Ég fór í göngutúr í kringum stöðuvatn sem er hérna rétt hjá og tók nokkrar haustlita myndir:


 Það er svo fallegt hérna núna að ég gleymi mér stundum þegar ég er að keyra í vinnuna við að horfa á trén.

Ég keypti mér þessa kápu um helgina (eftir að það var búið að laga bílinn)..
Hún er svo falleg að mig langar að vera í henni alltaf, það er bara ekki orðið nógu kalt!

Rétt við bílastæðin fyrir utan blokkina mína er villtur skógur. Í skóginum búa allskonar dýr en þangað til í fyrradag hef ég bara séð íkorna.
Á sunnudaginn kom ég heim úr vinnunni seint um kvöld og lagði alveg við skóginn. Við bílinn var tré og þegar ég steig út úr bílnum og leit upp horfði vera með hvítt andlit á mig. Mér brá hressilega, veit ekkert hverskonar skepnur lifa í Massachusettes, en fylgdist samt aðeins með dýrinu sem brölti í trjágreinunum.
Í gær þegar ég kom heim um kvöld sá ég dýrið aftur en þá var það á jörðinni og mjög nálægt mér. Það leit svona út:
Jább það er þvottabjörn að fylgjast með ferðum mínum og passa bílinn minn á næturnar. Veit ekkert um þvottabirni, vona að þeir séu ekki hættulegir!

Bless!
Steinunn

Monday, September 6, 2010

Nokkrar myndir

Bílamyndir fyrir Emil Ingo

Fór til Boston um daginn. Þar voru þessir hermenn og bíllinn þeirra. Börnin fengu að fara upp á þakið og handleika vélbyssuna. Sérlega smekklegt...

Þessi kappaksturbíll var líka þar. Mun huggulegra!

Þessi var fyrir utan eina blokkina um daginn. Líklega eitthvað karrý brunnið við...
Þessi var þar líka.



Almennar myndir

Snúður að passa dótið mitt og fallega bókamerkið frá ömmu og afa:)

Skrítið fólk að spila skrítna tónlist.
Bókasafnið í Boston sem var mun stórkostlegra en þessi mynd.







 

Bíllinn, vinnan og sigling í Maine

Bíllinn
Síðasta mánudag ætlaði ég að sækja bílinn minn sem ég hafði tekið á rekstrarleigu. Þeir hjá bílasölunni þurftu bara að koma síðustu pappírunum í gegn og síðan átti allt að verða tilbúið. Þegar ég mætti þangað kom hinsvegar í ljós að í Ameríku fæ ég ekki bankalán að svo stöddu. Það er vegna þess að ég hef enga "credit sögu" (sem er eitthvað sem maður safnar með því að borga reikningana sína) og vegna þess að social security númerið mitt er bara tímabundið.
Auminginn sem ég er, fór næstum að gráta þarna á bílasölunni, og bílasölukallinn endaði á því að keyra mig heim því ég var auðvitað ekki á bíl. Hann sagði mér að hann ætlaði að tala við vin sinn sem oft veit um notaða bíla og reyna að redda fyrir mig einhverjum ódýrum bíl. Þegar ég þakkaði fyrir mig sagði hann mér að honum fyndist eins og ég væri ein af fjölskyldunni hans! Sem er sannarlega ekki amalegt;)
Á morgun ætla ég að freista þess að kaupa 11 ára gamla Mözdu (reyndar ekki í gegnum nýja frænda minn...). Vona að það gangi vel.

Vinnan
Í síðustu viku byrjaði ég að vinna. Fyrstu tvær vikurnar í vinnunni eru þjálfunarvikur. Meðal þess sem ég gerði í síðustu viku var að læra að höndla börn sem eiga það til að flýja og lenda í árekstrum við annað fólk. Komst að því að margt sem ég hef verið að gera undanfarin ár er afar prófessjónal án þess að mér hafi verið kennt það, ætli sumt lærist ekki bara af biturri reynslu;)
Í dag var ég svo allan daginn með stelpunum sem ég er að fara að vinna fyrir. Þær eru allar afar spennandi og skemmtilegar og ég hlakka til að kynnast þeim betur.
Fékk þennan glæsilega brúsa í vinnunni.

Sigling í Maine
Síðasta föstudag keyrði ég með Berglindi og 2 vinkonum hennar til Maine til þess að fara í river rafting. Fellibylurinn Earl sýndi sig eilítið á leiðinni norður. Í allt sumar hefur alltaf rignt ef ég er að fara að ferðast, það hefur ekki breyst eftir að ég kom til Ameríku því það rigndi eldi og brennistein þegar ég fór í útilegu um daginn.

Eftir að við höfðum villst allhressilega á leiðinni til Maine (gps tækið afvegaleiddi okkur!), verið stoppaðar af löggunni og borðað risa skammt af kínverskum mat, komum við í kofann sem við gistum í um helgina. Hann var í ofurlitlu þorpi þar sem ekkert símasamband var. Í þessu þorpi búa 68 manns á veturna en um 1200 á sumrin. Með gistingunni fygldi afar góður amerískur morgunmatur.
Siglingin niður ánna var ótrúleg! Fyrst voru flúðir og stuð, við hoppuðum úr bátnum á einum stað til þess að láta okkur fljóta bara niður með ánni, ég drakk hressilegt magn af henni í leiðinni. Í miðjunni var stoppað og farið upp á land til að grilla og borða hádegismat. Eftir hádegismat var siglingin svo rólegri, við flutum bara niður og nutum þess að horfa á fallega útsýnið sem var ævintýralegt og fallega leiðsögumanninn sem hjálpaði okkur að sigla;)
Siglingin tók u.þ.b. 4 tíma og ég mun sannarlega fara aftur.
Um kvöldið sátum við svo við varðeld og drukkum með öllu fjallafólkinu sem rekur kofann sem við gistum í og enduðum á að fara á bæjarbarinn:)
Maine er ofsalega fallegur staður og þangað mun ég fara aftur. Við vorum líka bara um 60km frá landamærum Kanada, þarf að skreppa þangað við tækifæri til þess að bæta við landi í safnið.
Kofinn sem við gistum í.

Sunday, August 29, 2010

Týpískur dagur í ágúst 2010

Fór fyrst í ræktina. Hún er sirka 30fm.
Gleymdi hlaupaskónum mínum í Laugum 4 dögum áður en ég flutti. Fattaði það rétt fyrir flug. Þessir skór sem áður voru dansskór gegna því þeirra hlutverki í augnablikinu. Koma þægilega á óvart.

Horfði svo á þessa mynd. Hún var sorgleg.

Á meðan ég horfði á hana saumaði ég aðeins út í vettlinga...
...borðaði smá mat (hér er alltaf hægt að finna fullkomið avocado, jeij)...
...og handsnyrti sjálfa mig.
Horfði svo á þessa mynd



Klukkan er bara hálf 4. Kannski kemur seinni helmingur dagsins í máli og myndum í kvöld. Spennandi? Já held það nú!

Jæja

Núna er allt saman að smella hérna í Ameríku. Fékk loksins social security númerið (sem er svona svipað og kennitala). Komst að því þegar ég sótti um það að ég þurfti alls ekkert allar upplýsingarnar sem mér hafði verið sagt að ég þurfti, svo að í rauninni hefði ég getað sótt um þetta miklu fyrr. Frábært.

Ég fór og hitti mann hjá Toyota umboði. Ég var búin að lesa allskonar á netinu um bíla og mismunandi leiðir til þess að fá sér bíl. Á netinu er maður allsstaðar varaður við því að bílasölumenn vilja alltaf svindla á manni. Ég var því staðráðin í að vera mjög hörð, fá bara tilboð og skoða svo annarsstaðar líka til þess að fá besta samninginn. Það gekk þó ekki eftir, því um leið og ég labbaði inn í fyrstu bílasöluna breyttist ég í aumingja. Sagði bara já og amen við öllu því sem kallinn sagði og gleymdi alveg að spyrja hann að nokkru. Samþykkti þess vegna fyrsta samninginn sem ég fékk! Hann er reyndar nokkuð góður, fékk bílinn ódýrari því ég get keyrt beinskiptann sem þykir frekar merkilegt hér í Ameríku. Ég fæ svo glænýja Toyotu Corollu á rekstrarleigu þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að bíllinn bili.


Svona lítur nýji bíllinn minn út
Ég er reyndar ekki búin að fá hann enn, einhverjir pappírar þurfa að renna í gegn hjá Toyota, en fæ hann líklega á morgun:)

Ég fór í búð sem heitir Whole Foods á föstudaginn og þar fann ég bæði skyr.is og Nóa Siríus súkkulaði. Keypti auðvitað bæði, borðaði skyrið og mundi síðan að ég fæ illt í magann af því. Súkkulaðið rann hins vegar ljúflega niður án vandræða.

Á morgun byrja ég að vinna, loksins! Er mjög spennt að fá að gera eitthvað, orðin frekar þreytt á fríinu.

Wednesday, August 18, 2010

Ég elska Leoncie!

Pöddur og fleira

Ég fór í gönguferð með fjórum öðrum stelpum um helgina. Á leiðinni þangað byrjuðu þær að tala um dýrin og pöddurnar í skóginum sem maður þarf að vara sig á. Ég hata pöddur og varð ekki hrifin þegar þær sögðu mér að á Boston svæðinu er óvenju mikið af Ticks, eða Skógarmítli. Það hefði sannarlega verið gott að vita áður en ég fór út úr húsi því ég var berfætt í sandölum og stuttbuxum. Á leiðinni skemmti ég stelpunum með því að hlaupa í geðshræringu undan risa fiðrildum og fríka út yfir allskonar flugum.
Gangan var samt fín, ólík göngum hér heima, maður sá ekkert vegna ofsa hárra trjáa. Stelpan sem ég deili herbergi með, Laura, er spennt fyrir allskonar útivist og ég er ánægð með það. Hér í sirka 40mínútna fjarlægð er fullt af gönguleiðum og svo er skíðasvæði ekki svo langt í burtu. Mun sannarlega nýta mér það.
Stelpurnar ganga

Fullt af skógi


Um leið og ég opna munninn hérna giskar fólk á hvaðan ég er. Giskið er alltaf Skotland eða Írland! Ég hef greinilega tileinkað mér afskaplega töff hreim og er ánægð með það:)

Thursday, August 12, 2010

Fullt af frítíma!

Hér gerist ekkert rosalega mikið akkúrat núna, er bara í fríi þar til 30. ágúst á meðan allir hinir vinna svo ég slappa bara af og læt tímann líða. Fór reyndar í eyjasiglingu síðasta sunnudag með tveimur öðrum stelpum. Við sigldum út í eyju sem heitir Georges island og á henni er gamalt virki til þess að verja borgina fyrir óvinum. Eftir labb þar í steikjandi hita tókum við "water taxi" eða vatnaleigubíl út í aðra eyju sem heitir Spectacle island, sú eyja er að mestu gerð úr rusli. Hún er samt sem áður mjög falleg, allt ruslið er núna undir grasi og trjám.

Miðborg Boston séð frá sjó


Í vikunni hef ég svo:
-farið til Boston að skoða í búðir. Þar keypti ég mér bráðnauðsynleg sumarföt.
-Hangið við sundlaugina. Hef sjaldan verið jafn brún og ég er núna.
-Horft á sirka 20 þætti af Felicity.
-Leikið mér í orðavindu.
-Farið út að hlaupa einu sinni. Dó næstum því vegna lélegs þols og of mikils hita.
-Reynt að redda lykli að Fitness herberginu hérna, fæ hann ekki fyrr en eftir helgi.
-Farið í leiðangur í leit að áfengisverslun.
-Keyrt í 1 og hálfan tíma til Springfield til þess að fá undirskriftir sem ég fékk ekki.
-Heimsótt NECC  (staðurinn sem ég mun vinna á) í smástund.
-Spjallað við og kynnst stelpunni sem ég deili herbergi með.
-Talað í símann við bílasala sem var með svo mikinn hreim að ég skildi hann varla. Sjálf var ég líklega með svo mikinn hreim að hann skildi mig ekki...

Áttaði mig á því í dag að fólk gerir ráð fyrir að maður eigi ávísanahefti! Varð það ekki úrelt 90 og eitthvað? Hef allavega aldrei þurft að nota svoleiðis síðan ég byrjaði að borga fyrir hluti sjálf. Klikkuðu útlendingar...

Saturday, August 7, 2010

Myndir

Hnetusmjör og sulta saman í krukku, bara fyrir mömmu:)
Húsið mitt.
Fullkomin stærð af gosdós!
Unaðslega sundlaugin.
Útsýnið af svölunum




Fáni frelsisins fyrir utan húsið.


Mun ekki byrja að vinna fyrr en þrítugasta svo ég fæ auka 3 vikur í sumarfrí. Æfði mig í dag, fór í búðir, sólaði mig við sundlaug og horfði á sjónvarpið. Nokkuð góður dagur bara svo ég er bjartsýn á framhaldið;)

Friday, August 6, 2010

Flutt til útlanda

Ég er flutt til útlanda. Bý fyrir utan Boston í bæ sem heitir Westborough. Íbúðin er þokkalega stór og ég deili henni með 3 öðrum stelpum, er í herbergi með einni þeirra. Hef enn ekki hitt þær, tvær eru í fríi og sú þriðja flytur inn á morgun.
Byrja vonandi að vinna næsta miðvikudag sem er það sem mér var sagt frá byrjun, en kannski verður það ekki fyrr en 30. ágúst. Veit ekki alveg hvað ég á að dóla mér við í 3 vikur ef ég byrja ekki að vinna strax en það reddast eins og annað:) Byrja held ég í skólanum í lok ágúst, það er samt eitthvað óljóst, kemur í ljós eins og annað.
Hér er ekki mikið hægt að gera ef maður er bíllaus, þarf því að redda mér Massachusetts bílprófi og kaupa svo eða leigja bíl. Það er hinsvegar ekki hægt að gera fyrr en ég fæ "social security number" og ég get ekki fengið það fyrr en ég næ í konu hjá skólanum sem ég er að fara í. Það er sumsé allt bara í biðstöðu í bili.
Ég er þó svo heppin að hér í næstu blokk býr Berglind, sem er búin að vera hér í 3 ár. Hún keyrir mig og lánar mér bílinn sinn og hjálpar mér með allt saman, það er stórgott:)